Skrifstofurými til leigu

Líf í miðborg er töfrablanda sem verður til á hverjum degi. Lykillinn að stækkun miðborgarinnar á Höfðatorgi er ekki síst rétt samsetning íbúða og atvinnustarfsemi, auk þjónustu og menningarstarfsemi á borð við tónleika og listsýningar, veisluhöld og fræðslustarf. Þannig laðast gestir að Höfðatorgi úr öllum áttum, og þeir koma aftur og aftur.

Jarðhæðir bygginga við Höfðatorg eru ætlaðar fyrir verslanir, veitingarekstur og aðra þjónustu þar sem beinn aðgangur viðskiptavina er lykilatriði. Lagt er upp með að sérverslanir með vandaðar vörur auki gildi svæðisins. Hönnun Höfðatorgs er hugsuð þannig að þangað laðist fjölbreyttur verslunar- og veitingarekstur sem henti þeim sem búa og/eða vinna á svæðinu.

Göngugötur og torg ná yfir rúmlega helming af Höfðatorgsreitnum og skapa umgjörð fyrir fjölbreytt mannlíf, veitingastaði og kaffihús, verslanir og margvíslega þjónustu. Öll starfsemi miðast við að skapa hlýlegan miðbæjarkjarna sem þjónar íbúum, starfsfólki, nágrönnum, gestum og gangandi. Kaffihús og veitingastaðir opna út þegar vel viðrar á Höfðatorgi. Hönnun bygginga miðast við að veita gott skjól og tengibyggingar með glerþökum gera Höfðatorg að skemmtilegu svæði allan ársins hring. Nægt rými verður utandyra fyrir tónleika, listsýningar og aðrar uppákomur. Höfðatorg verður þannig samfélag athafnalífs, menningar, verslunar og þjónustu í náinni sambúð við íbúa á svæðinu. Markmið okkar er að skapa torgmenningu af því tagi sem Íslendingar hafa kynnst víða erlendis og áhugaverð viðbót við aðra staði þar sem borgarbúar hittast á tyllidögum, s.s. Austurvöll, Lækjargötu, og Arnarhól.

Báðar byggingarnar sem risnar eru á Höfðatorgi hafa að geyma verslanir, kaffihús og veitingahús á jarðhæð.

Katrínartún 4 við Höfðatorg er níu hæða skrifstofubygging. Verslunar- og þjónusturými getur verið á jarðhæð. Byggingin er samtengd öðrum húsum við Höfðatorg í gegnum sameiginlegan bílakjallara. Notendur í húsinu fá bílastæði í bílakjallara svæðisins. Úr bílakjallara er innangengt í stigaganga í kjallara hússins.

Gert er ráð fyrir að fyrstu rými í húsinu, þ.e. öll 7., 8. og 9. hæð, verði afhent í október 2017.

Áhugasömum aðilum bjóðum við að láta máta sig inn í einstakar hæðir, einnig er mögulegt að skipta hæðum milli fyrirtækja.

Reikna má með að afhendingartími tilbúins leigurýmis sé almennt 4-6 mánuðir eftir undirritun leigusamnings, allt eftir stærð viðkomandi rýmis.

Kynning á glæsilegri nýbyggingu Katrínartúni 4